Útreikningurinn byggir á útreikningum sem birtust í grein eftir Magnús Sigsteinsson, forstöðumann Byggingaþjónustu Bændasamtaka Íslands, og birtist fyrst í Handbók bænda árið 1999.
ATH: Athuga að útreikningurinn eru bara til viðmiðunar miðað við tölurnar gefnar í greinninni og eru skv. henni mestu afköst og reglugerð 438/2002. Aðrar reglur geta einnig gilt.
Hér hleðst þetta
[CP_CALCULATED_FIELDS id=”7″]
Hér er greinin eins og hún birtist.
Loftræsting í gripahúsum
Gott loft í húsunum eykur vellíðan gripanna, endingu húsa og innréttinga og auðveldar allt hreinlæti.
Loftslag í gripahúsum mótast aðallega af eftirfarandi þáttum: Hita, raka, lofthraða og magni ýmissa gastegunda og ryks. Séu þessir þættir í hæfilegri blöndu verður útkoman gott loft.
Nautgripir, sauðfé og hross þurfa ekki mikinn hita í húsum. Rannsóknir og reynsla sýna að þessir gripir þrífast ágætlega við lágt hitastig, jafnvel talsvert frost ef þeir hafa notalegan og trekklausan stað að liggja á. Hitastigið í lausgöngufjósinu, hesthúsinu eða fjárhúsinu er þess vegna ekkert aðalatriði. Nýrúið sauðfé þolir þó ekki mikinn kulda. Í svína- og fuglahúsum og hjá ungkálfum þarf hins vegar að vera nægur hiti.
Mikilvægt er að halda lofthraðanum umhverfis gripina lágum til þess að forðast trekk; 0,1-0,2 m/sek er talið hæfilegt. Þetta er sérstaklega mikilvægt yfir vetrartímann því kaldur trekkur getur verið sjúkdómavaldur. Þegar heitt er í veðri getur gustur hins vegar verið af hinu góða til kælingar.
Mikill raki í húsunum er til vandræða. Erfiðara verður að halda nægu hreinlæti í umhverfi gripanna vegna aukins örveruvaxtar og raki er skaðvaldur fyrir hús og innréttingar. Æskilegt rakastig í gripahúsinu er yfirleitt á bilinu 60-75% og ætti aldrei að fara yfir 85%. Með því að lækka hitann (auka loftræstingu í húsinu) má oftast ná rakastiginu í viðunandi mark. Til þess þarf loftræstikerfi hússins að vera nægilega öflugt og húsið nægilega vel byggt og einangrað ef gerðar eru kröfur um ákveðinn lágmarkshita þar inni.
Gasmengun er sjaldnast vandamál í gripahúsum nema þegar verið er að hræra upp í haugkjallara þar sem opið er upp í gripahús um flórristar eða rimlagólf. Þá þarf að sýna fyllstu aðgát og loftræsta gripahúsið mjög vel ef hrært er í kjallaranum meðan gripirnir eru inni.
Við ákvörðun á nauðsynlegri afkastagetu loftræstikerfis í gripahúsi þarf að taka mið af varmaframleiðslunni í húsinu. Gripirnir gefa frá sér varma út í umhverfið og þann varma eða a.m.k. hluta hans þarf loftræstikerfið að fjarlægja úr húsinu. Á hlýjum vor- og sumardögum má segja að loftræstikerfið þurfi að geta fjarlægt mest allan þennan varma úr húsinu til þess að ekki verði óþægilega heitt inni. Hámarksafköst kerfisins verða því að miðast við það hlutverk.
Þegar kalt er úti tapast hins vegar varmi út úr húsinu með varmaleiðni út um gólf, þak, veggi, glugga og dyr. Við þær aðstæður er aðalhlutverk loftræstikerfisins að fjarlægja raka úr húsinu. Það kallast lágmarksloftræsting. Varmaframleiðsla gripanna nýtist þá til þess að hita upp útiloftið sem kemur inn um loftinntaksopin og loftið getur þannig bætt í sig raka áður en það fer sína leið út um útloftunaropið.
Varmaframleiðsla búfjár er mæld í svokölluðum varmaframleiðslueiningum (VFE) þar sem 1 VFE jafngildir 1000 wöttum (W). Gera má ráð fyrir því að hámarksafköst loftræstikerfis við íslenskar aðstæður þurfi að vera 200 – 300 m3/klst fyrir hverja varmaframleiðslueiningu.
Lágmarksloftræstiþörfin í kulda er hins vegar ekki nema brot af þessu og því þarf að vera mögulegt að stjórna loftræstikerfinu innan víðra marka. Þetta gildir bæði um útblástur á “notuðu lofti” og loftinntak og dreifingu fersks lofts um húsið.
Tafla 1 gefur yfirlit um varmaframleiðslu búfjárins og hámarksloftræstiþörf. Við ákvörðun loftmagns er gert ráð fyrir því að nautgripir, hross og sauðfé séu úti á sumrin og nauðsynleg loftskipti því miðuð við hlýja vordaga, 200 m3/klst. á hverja VFE. Hjá svínum og alifuglum, sem eru inni á sumrin, er hins vegar miðað við loftskipti 300 m3/klst. á hverja VFE. Með því að margfalda tölurnar í töflu 1 með fjölda gripa í húsi má finna áætlaða heildarvarmaframleiðslu og loftræstiþörf hússins.
Tafla 1. Varmaframleiðsla búfjár og loftræstiþörf
Tafla 1. Varmaframleiðsla búfjár og loftræstiþörf
Þyngd gripa
kg |
Fjöldi VFE/grip | Hámarks loftskipti m3/klst/grip | ||
Nautgripir | kálfar | 50 | 0,12 | 25 |
100 | 0,23 | 45 | ||
geldneyti | 200 | 0,42 | 85 | |
300 | 0,58 | 115 | ||
400 | 0,72 | 145 | ||
Mjólkurkýr | 400 | 1,08 | 215 | |
500 | 1,16 | 230 | ||
Svín | smágrísir | 15 | 0,08 | 25 |
25 | 0,11 | 35 | ||
sláturgrísir | 50 | 0,17 | 50 | |
70 | 0,21 | 65 | ||
90 | 0,24 | 70 | ||
gyltur | 175 | 0,25 | 75 | |
gyltur með smágrísi | 175 | 0,44 | 130 | |
Fuglar | holdakjúklingar | 1,0 | 0,01 | 3 |
1,5 | 0,012 | 3,5 | ||
varphænur | 2,5 | 0,013 | 4,0 | |
Hestar | 400 | 0,6 | 120 | |
Sauðfé | 60 | 0,12 | 25 |
Greinin er eftir Magnús Sigsteinsson, forstöðumann Byggingaþjónustu Bændasamtaka Íslands, og birtist fyrst í Handbók bænda árið 1999.